Bestun ljósa sparar milljarða

Við hjá Miðfloknum höfum bent á nú um nokkurt skeið að það þarf að stilla umferðarljós betur þannig að þau vinni saman sem heild. Árið 2006 var fjárfest í flottri ljósastýringartölvu frá Siemens: Sitraffic Central, sem átti að samtengja allar ljósastýringar á svæðinu. En það voru aðeins nokkur umferðarljós tengd við þessa tölvu og aldrei klárað að stilla kerfið þannig að það skilaði nokkrum árangri. Við hjá Miðflokknum höfum að undanförnu hitt bæði sérfræðinga í ljósastýringarmálum og starfsmenn borgarinnar sem hafa unnið í þessum málum. Þeim ber saman um að það er hvergi nærri búið að sinna þessum málum nægilega vel.

DagurCoSamgöngumál borgarinnar hafa verið vanrækt á síðustu árum með vítaverðum hætti. Allt sem teljast mætti einkabílnum til tekna hefur verið hundsað eða markvisst ýtt til hliðar. Borgarstjórn gerði ásamt öðrum sveitarfélögum á Höfuðborgarsvæðinu árið 2012 samning við Vegagerðina um að slá stærri framkvæmdum á frest í 10 ár, svo sem Sundabraut og tvöföldun á Reykjanesbraut. Viðhald gatna hefur einnig verið vanrækt og  holur í malbiki hafa valdið gríðarlegu tjóni. En minna hefur verið talað um að umferðarljósastýringu sé ábótavant. Þar til nýlega að frétt birtist á RÚV þar sem Hrafnkell Proppé, sem fer fyrir stýrihóp um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu, lýsir þeirri skoðun að það vanti að stilla ljósin.

Það er ágætt að Samtök Sveitafélaganna á Höfuðborgarsvæðinu séu búin að taka upp stefnu Miðflokksins í þessu máli. Við höfum talað fyrir því um nokkurt skeið að það þurfi að stilla ljósin og það strax. Það þarf að klára að tengja öll 131 ljósagatnamótin á höfuðborgarsvæðinu, þar af 116 í Reykjavík, við rándýra og fína kerfið sem var keypt og leggja vinnuna í að forrita kerfið þannig að það sé að gera eitthvert gagn. Forritun kerfisins er í raun mikilvægust í þessu öllu, að kerfið sé stillt rétt og reglulega. Því annars gerir það ekkert gagn eða jafnvel illt verra.

 

Dæmi um áratugagamlar stillingar í borginni

Í skýrslu sem Vegagerðin lét gera um málið kom fram að það séu mörg dæmi um áratugagamlar stillingar á ljósum á höfuðborgarsvæðinu. Þar er umferðinni stýrt eins og hún var fyrir áratugum síðan, en ekki eins og hún er í dag. Í skýrslu Vegagerðarinnar segir líka að það þurfi að uppfæra stillingar á 3-5 ára fresti og oftar fyrir hverfi sem eru í örri þróun. Þegar klárað var að tengja fyrsta áfanga af umferðarljósum við Siemens kerfið var sett inn samskonar forritun á ljósin eins og var á þeim fyrir. Þannig er í raun sama stillingin enn á þessum ljósum. Því aldrei var farið í bestun á stillingum, mögulega því að það kom efnahagshrun fljótlega eftir þetta og áhuginn á verkefninu virðist hafa fjarað út. Dagur B. borgarstjóri skar köku sem leit út eins og umferðarljós þegar tölvan var keypt, en þar með lauk afskiptum hans af málinu.

Ábati umferðaljósabestunar talinn í milljörðum

Rannsókn á vegum Federal Highway Administration í Bandaríkjunum hefur metið ábata af ljósastýrikerfum vera allt að 40 á móti 1. Það er að hver króna sem er sett í þennan málaflokk geti skilað sér fjörtíufalt til baka í formi tímasparnaðar og eldsneytissparnaðar. Þar er einnig sagt að slíkar fjárfestingar séu yfirleitt búnar að skila sér á innan við ári.

Í Oslo og Eindhoven var gerð könnun á ferðatíma fyrir og eftir slíkar stillingar og var munurinn 15% í Oslo og 17% í Eindhoven.

Í útreikningum sem birtust á síðu Stjórnarráðsins í janúar 2008 í tengslum við hið nýja kerfi var áætlað að hver prósenta í styttingu ferðatíma myndi spara ökumönnum um 143 milljónir í eldsneyti og tíma. Þannig að ef árangur yrði samskonar eins og í Eindhoven væru það 2.436 milljónir á ári (tölurnar allar á núvirði). Inni í þessum tölum er auðvitað ekki sá þjóðhagslegi ávinningur sem fellst í því að fækka slysum né gerð tilraun til að verðmeta þau auknu lífsgæði sem felast í styttri ferðatíma. Svo fyrir utan að þetta gæti hreinlega bjargað mannslífum með því að liðka fyrir akstri neyðarþjónustu.

Ég hef hér útskýrt hvernig þetta virkar á mjög einfaldaðan máta og bent á að reynsla og rannsóknir sýni hagkvæmnina í bestun umferðarljósa.  En nú er spurning hvort borgarmeirihluti vilji nokkuð gera til að greiða fyrir umferð akandi. Þeir hafa ekki sýnt neina tilburði í þá veru s.l. 12 ár sem Dagur B. hefur verið ýmist borgarstjóri eða í meirihluta. Það ætti vitanlega að setja sem langtímamarkmið að fækka þessum ljósastýringum verulega. En þangað til þá er gríðarlega ábatasamt að láta stilla ljósin og klára tengingu við hið miðlæga kerfi sem gerir stillingu og samræmingu enn auðveldari. Það er ekki eftir neinu að bíða en að fara í þá vinnu strax eftir kosningar og það ætlum við í Miðflokknum að gera fáum við umboð ykkar til þess.

Grein þessi birtist fyrst í Morgunblaðinu.
Viðar Freyr Guðmundsson
6. sæti í Reykjavík