Draumahverfið er handan við hornið – Grein í Hverfisblað Grafarholts

Það er vor í lofti og sólin farin að gleðja okkur íbúa Grafarholts og Úlfarsárdals. Nú er tíminn til að taka til í garðinum, stilla grillinu upp á svölunum og njóta þess besta sem sumarið býður upp á með fjölskyldu og vinum. En þetta er ekkert venjulegt vor því nú gefst okkur íbúunum tækifæri til breytinga.Tækifæri til að gera hverfið okkar að því besta sem völ er á. Það eru kosningar 26.maí.

Miðflokkurinn í Reykjavík er með fullfjármagnaða og skýra stefnuskrá sem mun bæta hverfið okkar og gera okkur lífið einfaldara og skemmtilegra á mörgum sviðum:

Frítt í strætó fyrir alla Samhliða verður leiðakerfi bætt og sérstök millihverfaleið tekin í gagnið sem styttir t.d. ferðatíma í Heilsugæslustöðina okkar í Árbæ um allt að 30 mín! Næturstrætó nái til okkar hverfis líka. Jákvæð áhrif þessa eru víðtæk og koma best þeim sem eru að berjast við að ná endum saman í hverjum mánuði.

Frístundakort hækkað úr 50þús. í 100þús kr. Þannig viljum við stuðla að því að öll börn og ungmenni geti stundað að minnsta kosti eina íþrótt eða tómstund sér að kostnaðarlausu. Hér gildir sama, jákvæð víðtæk áhrif og öllum gert kleift að vera með.

Gjaldfrjáls matur fyrir nemendur í grunnskólum Ekkert barn á að þurfa að líða skort og allra síst í landi allsnægta eins og hér er. Enn og aftur gildir það sama, jákvæð víðtæk áhrif og ekkert barn mun líða skort. Miðflokkurinn ætlar jafnframt að tryggja öllum börnum gjaldfrjálsan grunnskóla með ókeypis námsgögnum.

Valfrelsi í ferðamáta – Umferðahnútar leystir Það þarf ekki að keyra langt inn í hverfið okkar til að sjá að það er eitthvað mikið að þegar kemur að gatnagerð og umferðarmannvirkjum. Raunar er ástandið svo slæmt að oft komumst við varla inn í hverfið okkar fyrir löngum röðum sem teygja sig langt niður á Vesturlandsveg og raunar í allar áttir. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar/kvartanir okkar sem hér búum er engu svarað. Fyrir því er einföld ástæða, það er ekki áhugi fyrir því hjá fráfarandi meirihluta við Tjörnina í 101. Hér verður mikil breyting á því, það er yfirlýst stefna Miðflokksins að valfrelsi í ferðamáta sé grundvallaratriði. Engum skal refsað fyrir að nota fjölskyldubílinn, Strætó, hjól eða fara gangandi. Gera skal umbætur sem greiða leið allra. Strax að loknum kosningum verður stillingu ljósa við Víkurveg/Þúsöld breytt og afköst þannig aukin um minnst 50%. Í kjölfarið verður sett upp hringtorg af nýjustu gerð og þar með er vandinn endanlega leystur. Samhliða verður bætt við akrein fyrir útakstur frá Gullöld inn á Þúsöld og auk þess gerð ný frárein/leið frá Krónuplani inn á Víkurveg/Reynisvatnsveg. Biðstöðvareinar/útskot verða jafnframt gerðar fyrir Strætó á öllum fjölfarnari götum hverfisins svo umferð eigi greiða leið. Miðflokkurinn ætlar einnig að ráðast í gerð Sundagangna/brautar. Mun sú leið snarminnka umferð um Ártúnsbrekku og létta þar með stórkostlega á umferð að og frá hverfinu okkar.

Stækkun hverfisins – Aukin þjónusta Miðflokkurinn ætlar að greiða fyrir stækkun hverfisins íbúalega séð, með byggingu nýrra hverfishluta sem tengjast fyrirliggjandi byggð. Þannig gefst svigrúm til að auka þjónustu við okkur sem hér búum. Hér er t.d. um að ræða svæði eins og svæðið ofan Skyggnisbrautar. Horfið verður frá þeirri ólíðandi leið sem farin hefur verið og felur í sér stóraukið byggingamagn á litlum lóðum inni í byggðum hlutum hverfisins með tilheyrandi bílastæðaskorti og ónæði. Kraftur verður settur í að flýta verklokum byggingar skóla, menningarhúss og íþróttaaðstöðu í Úlfarsárdal. Glærusýningar og svikin loforð duga ekki lengur. Verk skulu tala. Reynisvatnsvæðið verður áfram náttúruperlan okkar. Göngustígar og aðstaða verður bætt svo svæðið megi skarta sínu fegursta og besta öllum stundum. Skoðað verður hvort vilji sé hjá íbúum til að fá lítið kaffihús með verönd við vatnið og þannig gera svæðið jafnvel enn skemmtilegra fyrir útvist og göngutúra. Miðflokkurinn mun standa vörð um þetta frábæra útivistarsvæði okkar. Þar verða ekki reist glæsihýsi fyrir útvalda.

Hér höfum við aðeins farið yfir það helsta. Mörg önnur þarfaverk bíða úrlausna og mun Miðflokkurinn að sjálfsögðu taka á þeim líka.

Fáum við umboð frá ykkur kæru íbúar, þá er Miðflokkurinn klár í verkin. Tökum höndum saman og gerum hverfið okkar að því hverfi sem allir vilja búa í. Það er hægt, allt sem þarf er vilji og metnaður og af hvoru tveggja höfum við nóg.

Skundum á kjörstað og kjósum fyrir hverfið okkar. #XM2018

Höfundur er Baldur Borgþórsson íbúi í Grafarholti/Úlfarsárdal og skipar 2.sæti Miðflokksins í Reykjavík.

Baldur 2018